Af aflabrögðum og ráðgjöf

Tveir reynslumiklir togveiðiskipstjórar eru ósammála ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í þorski um niðurskurð á aflamarki “um 6% á næsta fiskveiðiári til viðbótar við 13.5% niðurskurð í fyrra”. Þeir segja: “Ráðgjöfin er ekki bara að okkar mati, heldur langflestra reyndustu skipstjóra og sjómanna landsins, algjört rugl (Fisk seafood 2022-06-20, Morgunblaðið 2022-06-23)”. Bjóða jafnframt upp á að “… kíkja jafnvel í veiðidagbækur skipanna og kynna sér raunveruleikann …”. Í þessum stúf eru bækur togveiðiskipstjóra á þessari öld skoðaðar og bornar saman við mat Hafrannsóknastofnunar á viðmiðunarstofni sem ráðgjöf byggir á. Samanburðurinn sýnir að þróun í aflabrögðum og mati á stærð stofnsins hefur verið mjög svipuð síðustu 20 árin.

Einar Hjörleifsson https://heima.hafro.is/~einarhj/ramb
2022-08-15

Ákvörðun aflamarks þorsks hvers fiskiveiðiárs er byggt á mati á viðmiðunarstofni í upphafi hvers stofnmatsárs. Inntaksgögn í stofnmatinu eru aldursgreindur afli í fjölda ásamt stofnvísitölum úr vor- og haustralli. Viðmiðunarstofninn er metinn lífmassi fiska fjögurra ára og eldri.

Afladagbækur skipstjóra eru mikilvæg gögn sem veita upplýsingar um staðsetningu veiða, gögn sem eru notaðar við útreikninga á aldursgreindum afla. Aflabrögð skipstjóra eru þó ekki notuð sem vísitala í stofnmati, vegna breytinga í veiðarfærum yfir tíma. Þróun í aflabrögðum í togveiðarfærum, þ.e. afli á togtíma ætti samt sem áður að vera í einhverju samræmi við þróun í stofnstærð. Í eftirfarandi útreikningum eru aflabrögð reiknuð út frá einfaldri summu af þorskafla deilt með summu togtíma fyrir hvert ár fyrir tog þar sem þorskur er 50% eða meira af heildarafla togs.

Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar stækkaði viðmiðunarstofninn úr um 700 þúsund tonnum á fyrsta áratug þessarar aldar í um 1150 þúsund eftir 2013 (sjá mynd). Þessi 65% aukning í stofnstærð var fyrst og fremst vegna minnkandi sóknar á þessari öld en að hluta einnig vegna hækkunar meðalþyngda í mikilvægum aldurflokkum og lægri tíðni slakra árganga. Í framhaldinu minnkaði stofninn um 150 þúsund tonn, eða um 15% og hefur verið um 1000 þúsund tonn síðustu þrjú ár. M.a. vegna þess að árgangar eftir 2012 (sem komu fyrst í viðmiðunarstofninn eftir 2016) eru nokkuð lægri en undangengnir árgangar. Samkvæmt veiðidagbókum skipstjóra þá sveiflaðist afli á sóknareiningu í kringum 1000 kg á togímann á fyrsta áratug þessarar aldar en jókst í um 1750 kg á togtíma eftir 2013 sem um 75%. Á síðustu 3-4 árum hafa aflabrögð togaraflotans hinsvegar minnkað um tæp 15% og voru um 1500 kg á togtíma á síðustu tveimur árum.

Vart er hægt að draga aðra ályktun en að nokkuð gott samræmi sé á milli breytinga á viðmiðunarstofni og þorsksaflabrögðum í togveiðum á síðustu 20 árum, bæði þegar kemur að hinni miklu aukningu upp úr 2010 sem og nokkurar lækkunar á síðustu árum. Lækkanir í aflamarki á síðustu tveimur árum eru samkvæmt ofangreindu í góðu samræmi við lækkun í aflabrögðum togaraflotans samkvæmt veiðidagbókum togveiðiskipstjóra. Þrátt fyrir lækkun er staða stofnsins sem og aflabragða þó enn góð í samanburði við það sem var í upphafi aldarinnar og einnig ef leitað væri lengra aftur í tímann.

Citation

For attribution, please cite this work as

Hjörleifsson (2022, Aug. 15). Ramb: Af aflabrögðum og ráðgjöf. Retrieved from https://heima.hafro.is/~einarhj/ramb/posts/2022-08-15-af-aflabrogdum/

BibTeX citation

@misc{hjörleifsson2022af,
  author = {Hjörleifsson, Einar},
  title = {Ramb: Af aflabrögðum og ráðgjöf},
  url = {https://heima.hafro.is/~einarhj/ramb/posts/2022-08-15-af-aflabrogdum/},
  year = {2022}
}